Jólakveðja

Ágætu velunnarar Karlakórsins Heimis

Eiginlegt starf kórsins hefur nú legið niðri að mestu leyti síðan í mars sl., hvort sem um er að ræða æfingar eða tónleikahald. Um orsakir þessa þarf ekki að fjölyrða. Það er einnig orðið ljóst að við Heimismenn munum ekki halda hefðbundna áramóta/þrettándatónleika í Miðgarði að þessu sinni, og ekki verður heldur sungið í Skagfirðingabúð fyrir jólin – og ekki heldur á Dvalarheimilinu á Króknum, en stundirnar sem við höfum átt með heimilisfólki þar fyrir jól í gegnum tíðina eru okkur einkar kærar.

Við vonum þó að úr fari að rætast, og að kórinn geti hafið æfingar sem fyrst á nýju ári, og að forsvaranlegt verði að halda tónleika þegar líður að vori. Þangað til er m.a. hægt að stytta sér stundir við að hlusta á það sem kórinn hefur gefið út í gegnum tíðina, hluti af því aðgengilegur á tónlistarveitunni Spotify. Hluta af því efni má einnig nálgast á www.youtube.com, til dæmis lagið hér að neðan – þetta er Karlakórinn Heimir að flytja ; Það aldin er út er sprungið, sálmalag frá 15 öld, ljóð; Mattías Jochumsson. Með þessu lagi sendum við Heimismenn bestu jólakveðjur til ykkar allra, með þökk fyrir gamalt og gott, og horfum bjartsýnir til næsta árs og næstu ára.

Atli Gunnar Arnórsson, formaður

Það aldin er út er sprungið

deild: