Expo 2000

Expo 2000


Karlakórinn Heimir var valinn, ásamt fleiri listamönnum, úr hópi umsækjenda til að koma fram fyrir Íslands hönd á heimssýningunni í Hannover árið 2000, á  þjóðardegi Íslands á sýningunni,  miðvikudaginn 30. ágúst.
 
Lagt var af stað frá hótelinu okkar, Bad Pyrmont, á miðvikudagsmorgun kl. 06.00 en  hótelið er í samnefndum bæ í sjötíu kílómetra fjarlægð frá Hannover.   Klukkan 08.00 var komið á Plaza-torgið á sýningarsvæðinu, sem er stórt og mikið yfirtjaldað torg, þar sem fram fóru opinberar móttökur á heimssýningunni.   Þar var tekin létt upphitun og menn fengu tækifæri til að viðra sig.   Stuttu seinna kom einnig lúðrasveit lögreglunnar í Hannover og æfði með okkur þýska þjóðsönginn. 

Klukkan 10.00 hófst svo hin formlega athöfn.  Kórinn söng í rúmlega hálfa klukkustund og á þeim tíma dreif fólk að úr öllum áttum til að hlusta.  Kom það okkur kórmönnum skemmtilega á óvart hvílíkur mannfjöldi var þarna samankominn svo snemma dags.   Upp úr 10.30 gekk forseti Íslands með fríðu föruneyti inn á svæðið ásamt háttsettum þýskum gestgjöfum.  Flutt voru nokkur ávörp þar sem forsetinn var meðal flytjenda.   Að lokum voru þjóðsöngvar Íslands og Þýskalands fluttir.   Kórinn flutti íslenska þjóðsönginn án aðstoðar lúðrasveitarinnar en hún lék hins vegar með við flutning þýska þjóðsöngsins.
Íslendingar sem á hlýddu sögðu að stemmingin meðal áheyrenda, sem voru á milli þrjú og fjögur þúsund, hefði verið stórkostleg og að tár hefðu sums staðar verið þerruð meðan á flutningi þjóðsöngvanna stóð.   Það er sumra álit að þessi móttökuathöfn hafi verið ein af allra stærstu stundum í sögu Karlakórsins Heimis.

Klukkan 13.00  var kórinn síðan mættur í beina útsendingu hjá þýska sjónvarpinu ásamt íslenskum hestamönnum sem létu gamminn geysa.  Tónleikar dagsins hófust svo kl. 17.00 í tónleikahöll sýningarsvæðisins.  Aðsókn var góð og undirtektir frábærar. Lauk þar með formlegri dagskrá kórsins þennan eftirminnilega miðvikudag.

 Það voru þreyttir en glaðir kórfélagar sem afklæddust einkennisbúningi kórsins í rútunni eftir langa törn. Seinna um kvöldið var kórnum boðið í móttöku hjá Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra sem hann hélt til heiðurs því fólki er lagt hafði  hönd á plóginn við að gera þennan Íslandsdag á heimssýningunni í Hannover þannig að eftir var tekið og til sóma landi voru og þjóð. [g2:553][g2:557][g2:559][g2:561][g2:563]